Maurice Sendak
Þar sem óhemjurnar eru
Þar sem óhemjurnar eru
Ein þekktasta barnabók Bandaríkjanna er nú loksins fáanleg á íslensku
„Og nú,“ æpti Max, „hefst ærslagangurinn ógurlegi!“
Þar sem óhemjurnar eru er að margra viti ein besta barnabók 20. aldar og hefur selst í næstum því tuttugu milljónum eintaka á veraldarvísu. Bókin er einstök táknsaga um ímyndunaraflið, þennan villta og óhamda stað innra með okkur, og er skreytt ógleymanlegum myndum höfundarins, hins bandaríska Maurice Sendak.
Kvöld eitt fer Max í úlfabúninginn sinn og hegðar sér eins og óhemja. Móðir hans sendir hann í háttinn án þess að drengurinn fái nokkurn kvöldverð. Fljótlega breytist herbergi Max hins vegar í ógnarstóra ævintýraveröld og hann siglir á bát alla leið þangað sem óhemjurnar eru …
Sígild bók sem á heima í hverjum bókaskáp – ekki aðeins hjá börnum heldur hjá öllum þeim sem unna góðum bókum.
- Fyrir 3 ára og eldri
- Harðspjalda
- 26 × 23 sm
- 44 blaðsíður
Maurice Sendak (1928-2012) var einn virtasti barnabókahöfundur 20. aldar. Hann skildi eftir sig einstakt höfundarverk þar sem skörp kímnigáfa fléttast saman við drungalegri tóna í orðum og myndum um það bil 150 bókverka, á sextíu ára löngum ferli.
Sverrir Norland íslenskaði.